Ungmennaþing KSÍ fór fram síðastliðinn sunnudag í höfuðstöðvum KSÍ. Þingið var fyrir ungmenni fædd 2005-2012 og mættu um 70 ungmenni af öllu landinu.
Ungmennaráð KSÍ sá um undirbúning þingsins sem var hið glæsilegasta. Þrjú aðalumræðuefni þingsins voru ofþjálfun, konur í fótbolta og jákvæðar og neikvæðar hliðar fótboltans.
Líkt og undanfarin ár mættu góðir gestir til að taka þátt í umræðum. Lára Hafliðadóttir starfsmaður á vísindasviði KSÍ var með erindi um ofþjálfun, þá var Helga Helgadóttir varaformaður KSÍ með erindi um konur í fótbolta og að lokum mætti Hreiðar Haraldsson, hugarþjálfari frá Haus, og ræddi um jákvæðar og neikvæðar hliðar íþrótta.
Góðar umræður mynduðust og mun stjórn ungmennaráðsins vinna að niðurstöðum umræðuhópanna á næstu misserum. Hópurinn fór einnig í stutta skoðunarferð um Laugardalsvöll og var einn af hápunktunum þegar Arnar Gunnlaugsson og Þorsteinn Halldórsson sátu fyrir svörum um þjálfun, landsliðsumhverfið og allt annað sem viðkemur fótbolta.
Ungmennaráð KSÍ vill þakka þeim félögum sem sendu fulltrúa á þingið sem og öllum þeim sem mættu með það fyrir augum að efla knattspyrnu ungmenna á Íslandi.