Það er svakalegur leikur í Bestu deild karla í kvöld þegar Breiðablik tekur á móti Val á Kópavogsvelli.
Blikar eru með 13 stig eftir sex leiki en hafa ekki þótt allt of sannfærandi í upphafi móts. Valur er með 4 stigum minna og því mikið undir í kvöld fyrir liðið upp á að halda í við toppliðin.
„Það er rosalega mikið undir. Það yrði yfirlýsing ef þeir vinna en ef þeir tapa og Víkingur vinnur líka eru 7 stig í toppinn,“ sagði Albert Brynjar Ingason á Stöð 2 Sport um leikinn í kvöld.
Það hefur loðað við Val undanfarin tímabil að liðið kasti inn handklæðinu þegar toppsætið fjarlægist.
„Við vitum öll hvað gerist þegar það er langt í toppinn á Hlíðarenda,“ sagði Albert enn fremur.
Leikurinn hefst klukkan 19:15 í kvöld á Kópavogsvelli.