

Ólafur Jóhannesson var ekki hrifinn af ákvörðun síns gamla félags, FH, að ákveða að semja ekki við Heimi Guðjónsson um að þjálfa karlaliðið áfram.
Heimir hefur skilað ansi góðu starfi með FH undanfarin ár, auk þess að vera margfaldur Íslandsmeistari með liðinu á árum áður, en félagið vildi leita annað og hefur Jóhannes Karl Guðjónsson verið ráðinn í hans stað.
„Ég held að þetta sé algjört bull. Ég skil þessa ákvörðun engan veginn. Það eru allir ánægðir með hann, fólkið, leikmenn,“ segir Ólafur ómyrkur í máli í hlaðvarpinu Chess After Dark.

Ólafur, sem lék auðvitað með FH og þjálfaði um nokkur skeið, var þá ekki hrifinn af nálgun hins nýja þjálfara eftir að hann tók við. Við Sýn talaði Jóhannes um að yngja upp og byggja til framtíðar, Besta deildin í heild sinni sé allt of gömul og fleira í þeim dúr.
„Mér fannst áhugavert viðtalið við nýja þjálfarann. Mér fannst það mjög skrautlegt og sérkennilegt. Hann fór í þessa mögnuðu tölvu og taldi allt upp sem FH gerði illa, posession, xG og allan andskotann.
Mér fannst hann eiginlega hafa drullað yfir alla fyrrverandi þjálfara FH, mér fannst þetta eiginlega með ólíkindum,“ segir Ólafur enn fremur.