

Miðjumaður Brighton, Carlos Baleba, hefur viðurkennt að orðrómur um möguleg félagaskipti til Manchester United síðasta sumar hafi sett aukna pressu á sig á þessu tímabili.
Baleba, sem er 21 árs gamall landsliðsmaður Kamerún, var sterklega orðaður við Old Trafford. Sky Sports News greindi frá því í sumar að United hefðu mikinn áhuga á honum, en Brighton var staðráðið í að selja hann ekki.
Þar sem félagaskiptin gengu ekki eftir átti Baleba erfiða byrjun á tímabilinu og benti þjálfari hans, Fabian Hürzeler, á að umtalið um United gæti hafa haft áhrif á frammistöðu hans. Baleba sjálfur er þó ekki sammála því.
„Ég held ekki að þetta hafi haft áhrif á mig,“ sagði hann.
„En ég var undir mikilli pressu. Ég vildi strax spila jafn vel og á síðasta tímabili.“
Hann viðurkennir þó að hafa sett miklar kröfur á sjálfan sig, sem hann telur bæði krefjandi og jákvætt.