
David Beckham segir að jákvæð merki sjáist á Manchester United undir stjórn Ruben Amorim eftir 2-1 sigur liðsins á Crystal Palace í gær.
United sneri taflinu við á Selhurst Park eftir að hafa lent 1-0 undir, en Joshua Zirkzee og Mason Mount tryggðu liðinu mikilvægan sigur og komu því upp í 7. sæti, aðeins þremur stigum frá Meistaradeildarsæti.

Beckham ræddi stöðuna við Sky Sports á meðan hann fylgdist með Formúlu 1 í Katar.
„Ég held að það sjáist að stjórinn sé að snúa þessu við. Hann hefur breytt ákveðnum hlutum og við erum að ná í betri úrslit. Það er þó langt í land og nokkrir leikir þar sem við höfum ekki verið nógu góðir,“ sagði goðsögnin.
„Við erum með góðan stjóra og ég held að hann sé að breyta hlutunum hægt og rólega.“