
Liverpool mun þurfa að hafa mikið fyrir því að fá Marc Guehi, fyrirliða Crystal Palace, þar sem annað stórlið hefur bæst í kapphlaupið um enska landsliðsmiðvörðinn.
Liverpool reyndi að landa Guehi í sumar og fór leikmaðurinn meira að segja í læknisskoðun, en 35 milljóna punda skipti hrundu á síðustu stundu þegar Palace fann ekki mann í hans stað. Eftir stóðu Liverpool, og leikmaðurinn, í sárum.
Guehi hefur hafnað nýjum samningi við Palace og rennur núgildandi samningur út næsta sumar, sem þýðir að hann getur samið við erlent félag frá 1. janúar.
Það gefur evrópskum stórliðum forskot á Liverpool, en Guehi hefur verið orðaður við Bayern Munchen, Barcelona og Real Madrid, til að mynda.
Nú herma fréttir frá Spáni að Atletico Madrid sé komið í baráttuna um Guehi einnig. Diego Simeone, stjóri liðsins, er sagður mikill aðdáandi.