
Þórir Jóhann Helgason var ekki valinn í landsliðshóp Arnars Gunnlaugssonar fyrir komandi leiki Íslands gegn Úkraínu og Aserbaísjan.
Þórir var með í síðustu leikjum í undankeppninni, gegn Úkraínu og Frakklandi, en dettur út nú, sem og Sævar Atli Magnússon, sem meiddist gegn Frökkum. Inn í þeirra stað koma Hörður Björgvin Magnússon og Jóhann Berg Guðmundsson.
„Þetta er fyrst og fremst leiðinlegt fyrir hann því hann hefur verið mjög öflugur fyrir okkur. Hann datt í það að geta spilað allar stöður, sem er bæði gott og vont. Í þetta skiptið fannst okkur vanta meira jafnvægi í varnarleikinn og tókum Hörð Björgvin því frekar,“ sagði Arnar um það að skilja Þóri eftir.
„Hann er lítið búinn að spila með sínu félagsliði en hann hefur verið sterkur fyrir okkur. Fleiri mínútur væru æskilegar í hans tilfelli.“