

Arne Slot er undir mikilli pressu eftir hörmulegt gengi Liverpool, en samkvæmt heimildum Daily Mail Sport nýtur hann enn fulls trausts eigenda og stjórnenda félagsins.
Englandsmeistararnir hafa tapað níu af síðustu tólf leikjum sínum og síðustu tvö töpin, 3-0 gegn Nottingham Forest og 4-1 gegn PSV, bæði á Anfield hafa aukið óánægju stuðningsmanna.
Anfield tæmdist hratt eftir PSV-leikinn og baul heyrðist frá þeim sem sátu eftir. PSV-aðdáendur gerðu líka grín að Slot, sem áður stýrði erkifjendum þeirra, Feyenoord.
Þrátt fyrir þetta segja heimildir frá bæði Liverpool og Slot að staða hans sé ekki í hættu og að það hafi ekki breyst eftir tapið í Meistaradeildinni.
Slot mætir á blaðamannafund kl. 15 í dag og má búast við spurningum um framtíð sína. Liðið fær að öllum líkindum frí á föstudag, með endurheimt á fimmtudegi og æfingu á laugardag fyrir ferðina suður til London þar sem West Ham bíður á sunnudag.