

Albert Guðmundsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, var í landsrétti í dag sýknaður af ákæru um nauðgun. Þetta kemur fram á Vísi.
Albert var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í október í fyrra af ákæru fyrir að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við konu án hennar samþykkis. Var þeirri niðurstöðu áfrýjað til landsréttar.
Á Vísi kemur enn fremur fram að niðurstaðan í dag sé svo að tveir dómarar landsréttar af þremur vildu að Albert yrði sýknaður en að einn þeirra hafi skilað sératkvæði og vildi sakfella.
„Þannig að það er hársbreidd,“ segir Eva Bryndís Helgadóttir, réttargæslumaður konunnar, við Vísi.
Albert er leikmaður ítalska stórliðsins Fiorentina og landsliðsmaður Íslands. Hann var með íslenska liðinu í mikilvægum leikjum gegn Aserbaísjan og Úkraínu í undankeppni HM fyrr í þessum mánuði.