
Margrét Brynja Kristinsdóttir er gengin í raðir Vals frá FH, en frá þessu var greint í dag.
Margrét er aðeins 19 ára gömul og spilaði hún 17 leiki fyrir FH í deild og bikar í sumar, þar sem hún vakti athygli á miðjunni.
Tilkynning Vals
Valur hefur samið við miðjumanninn efnilega Margréti Brynju Kristinsdóttur, sem kemur til félagsins frá FH. Margrét sem er 19 ára gömul hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið.
Margrét er talin ein af efnilegustu ungu knattspyrnukonum landsins. Hún hefur vakið athygli fyrir frábæran leikskilning, góða tækni og mikinn vinnuanda á miðjunni. Þá hefur hún leikið með íslenskum landsliðum í yngri flokkum og sýnt þar að hún býr yfir gæðum og metnaði sem lofa góðu til framtíðar.
Gareth Owen, tæknilegur ráðgjafi Vals, segir: „Við erum gríðarlega ánægð að fá Margréti til okkar í Val. Hún hefur ítrekað sýnt að hún er kraftmikil, metnaðarfull og spennandi leikmaður sem á eftir að styrkja liðið strax. Við höfum mikla trú á hæfileikum hennar og teljum að hún muni dafna og blómstra í okkar umhverfi. Þetta er stórt og eðlilegt næsta skref á hennar ferli.“
Valur býður Margréti Brynju innilega velkomna í rauða búninginn og hlakkar til að sjá hana hefja æfingar á Hlíðarenda.