
Åge Hareide, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, hefur greinst með krabbamein á heila. Hefur það mikil áhrif á tal- og hreyfigetu.
Hann segir frá þessu í samtali við VG. Greint var frá því að Hareide væri að glíma við erfið veikindi á dögunum og nú hafa hann og fjölskylda hans greint frá eðli þeirra.
Hareide, sem er 72 ára gamall, var að íhuga að snúa aftur í þjálfun með landsliði Óman áður en veikdinin komu upp en nú hefur hann staðfest að hann muni ekki taka að sér fleiri störf í þjálfun.
Bendik sonur hans segir fjölskylduna nú taka einn dag í einu og ætlar hún sér að njóta jólanna saman.
Hareide sá landsliðs sitt, Noreg, tryggja sig inn á HM á dögunum og setur stefnuna á að vera á mótinu vestan hafs á næsta ári. Það fer þó auðvitað eftir heilsunni, sem er í fyrsta sæti.
Hareide tók við íslenska landsliðinu vorið 2023 og var aðeins einum leik frá því að koma því á EM ári síðar.