Halldór Árnason, fyrrum þjálfari Breiðabliks, fór yfir brottrekstur sinn þaðan í síðasta mánuði í samtali við Fótbolta.net. Hann segir aðila í kringum félagið hafa reynt að búa til óróa innan búningsklefans í Kópavogi nokkrum vikum áður.
Halldór var rekinn aðeins um ári eftir að hafa gert Blika að Íslandsmeisturum. Tímabilið hér heima í ár var ekki nógu gott en hann kom liðinu samt sem áður í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.
„Þetta kom á óvart, en leikmenn höfðu að vísu komið til mín nokkrum vikum áður og sagt mér frá því að það væri aðili í kringum félagið sem væri búinn að vera í sambandi við leikmennina, væri að reyna búa til óróa í klefanum, reyna komast að því hvort leikmenn væru búnir að missa trúna á þjálfarateyminu. Sömu leikmenn sögðu mér á þeim tíma að þessi aðili hefði verið sendur til baka með þau skilaboð að svo væri alls ekki, leikmannahópurinn og teymið væru bara ein heild sem bæru sameiginlega ábyrgð á því að liðið væri ekki í betri stöðu en það var á þeim tíma, heildin væri þétt og stæði saman í því að koma liðinu aftur á rétta braut. Þetta var fljótlega eftir Evrópuleikina úti í San Marínó þar sem við tryggðum okkur Evrópusæti. Ég spáði ekki meira í það á þeim tíma,“ segir Halldór við Fótbolta.net.
Hann vildi þó ekki nafngreina umræddan aðila.
„Já, en með virðingu fyrir nýjum þjálfara, leikmannahópnum og þeim verkefnum sem Breiðablik er í þá ætla ég ekkert að fara út í einhverja orðróma eða annað slíkt. Það hefur ýmislegt gengið á í félaginu síðustu mánuði, og kannski rúmlega það, en ég held því fyrir mig eins og er. Einhvern tímann í framtíðinni skrifa ég kannski bók um þennan tíma. Ég veit hvernig ég vinn, veit hvað ég stend fyrir og hvað ég lagði í þetta. Það er nóg fyrir mig. Ég vann af heiðarleika, talaði hreint út og var trúr mínum gildum. Ég er fullkomlega sáttur.“