
Ruben Amorim, stjóri Manchester United, útilokar ekki brottför Joshua Zirkzee og Kobbie Mainoo í janúar.
Báðir eru í aukahlutverki og hafa verið sterklega orðaðir við brottför. Zirkzee er engan veginn inni í myndinni hjá Amorim og hefur hlutverk hins unga Mainoo sömuleiðis snarminnkað undir stjórn Portúgalans.
Mainoo vildi fá að fara á láni undir lok félagaskiptagluggans í sumar en fékk ekki. Hefur hann til að mynda verið orðaður við Napoli.
Zirkzee kom frá Bologna fyrir síðustu leiktíð og hefur verið orðaður við endurkomu til Ítalíu.
„Félagið er í forgangi. Við munum hugsa um hvað er því fyrir bestu. Eftir það getur allt gerst,“ segir Amorim.