

Sadio Mané hefur í fyrsta sinn rætt opinskátt um stirt samband sitt við Mohamed Salah á meðan þeir spiluðu saman hjá Liverpool, þar á meðal fræga upphlaupið gegn Burnley árið 2019.
Tvíeykið myndaði eitt öflugasta sóknarpar Evrópu undir stjórn Jürgen Klopp og skilaði Liverpool fjórum stórum titlum, þar á meðal fyrsta deildarmeistaratitlinum í 30 ár. Samt hefur Salah viðurkennt að spenna hafi verið á milli þeirra utan vallar.
Í Rio Ferdinand Presents rifjaði Mané upp atvikið á Turf Moor, þegar hann varð æfur út af því að Salah hafi ekki sent á hann í dauðafæri. „Ég var virkilega, virkilega reiður,“ sagði Mané.
Myndbandið af Roberto Firmino brosa lúmskt milli þeirra í göngunum fór síðar eins og eldur um sinu á netinu.
Mané segist þó hafa leyst málið við Salah daginn eftir. „Hann kom til mín og sagði: ‘Þú heldur að ég hafi ekki viljað senda á þig? Ég sá þig einfaldlega ekki.’ Við töluðum saman og ég sagði: ‘Ég var bara svekktur því þú getur sent á mig oftar.’“
Senegalinn segir atvikið hafa gert þá nánari. „Frá þeim degi urðum við nánir vinir. Þetta var aldrei persónulegt, Mo vill bara skora. Ég sagði við hann: ‘Ég get hjálpað þér að vera markakóngur.’“
Mané spilar nú með Al-Nassr í Sádi-Arabíu eftir brottför sína frá Liverpool árið 2022.