
Færeyski markvörðurinn Ari Petersen er genginn í raðir ÍBV á láni frá KÍ Klaksvík, einu besta liðinu þar í landi.
Petersen er 22 ára gamall og lék alla leiki með U-21 árs landsliði Færeyja í síðustu undankeppni. Hann kemur til með að berjast við Marcel Zapytowski um stöðu aðalmarkvarðar hjá ÍBV.
ÍBV gerði frábæra hluti sem nýliði í Bestu deildinni á síðustu leiktíð og var í baráttu um að koma sér upp í efri hlutann.
Tilkynning ÍBV
Færeyski knattspyrnumaðurinn Ari Petersen hefur gengið til liðs við ÍBV á eins árs lánssamningi frá færeyska félaginu KÍ Klaksvík. Ari er 22 ára markvörður sem lék alla leikina fyrir færeyska U21 árs landsliðið í síðustu undankeppni.
Í ár lék Ari fyrir færeyska efstu deildarliðið 07 Vestur, hann var fyrirliði liðsins og lék alla 27 leiki liðsins í Betri-deildinni.
Þorlákur Árnason, þjálfari, hafði þetta að segja um Ara.
„Ari kemur inn eftir að Hjörvar yfirgaf félagið í haust, hans hlutverk er að berjast við Marcel um markmannsstöðuna. Ari er mjög góður á boltanum og þá er hann sterkur maður gegn manni. Hann var fyrirliði 07 Vestur í ár þannig að við teljum að við séum að fá mjög sterkan persónuleika.“