
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari Írlands mætti í viðtal á Bylgjunni í morgun til að ræða viðburðaríka daga, en hann kom liðinu í umspil um að komast á HM um síðustu helgi. Meðal annars fór hann út í samskipti sín við Cristiano Ronaldo eftir uppákomu þeirra.
Ronaldo fékk eftirminnilega rautt spjald fyrir að slá til leikmanns Íra í tapi Portúgal í Dublin á dögunum. Vildi hann meina að Heimir hafi háft áhrif á dómarann með því að segja fyrir leik að Ronaldo hafi stjórnað dómaranum í fyrri leik liðanna.
„Mér fannst hann stjórna fyrri leiknum sem við töpuðum 1-0 í Portúgal. Hann er bara af þeirri stærðargráðu að ef hann segir eitthvað, þá hlustar fólk og, og hann, hann stjórnaði ekki bara dómaranum í leiknum úti í leiknum, heldur bara öllu fólkinu. Það var náttúrulega stútfullur völlur í Lissabon. Og þegar að hann lyfti höndum, þá kom fólkið með og þess vegna fannst mér hann vera svolítið svona leikstjóri þarna,“ sagði Heimir á Bylgjunni og er haft eftir honum á Vísi.
„Auðvitað koma Írar líka á leikinn til að sjá Ronaldo, en ég vildi auðvitað fá þá til að styðja lið sitt. Hann var spurður um þetta á blaðamannafundi fyrir leikinn og þá sagði hann að, að ég væri klókur væri að reyna að setja pressu á dómarann. Eftir leikinn þegar hann var rekinn út af og þá, þá spurði hann mig bara hvort ég væri ánægður með þetta og ég sagði ég væri himinlifandi með að besti leikmaðurinn væri farinn út af,“ sagði Heimir léttur.
Ronaldo virkaði ósattur við Heimi er hann gekk af velli en Vestmannaeyingurinn ber engan kala til stjörnunnar.
„Ég ætla bara að hrósa honum vegna þess að hann sagði bara: „Til hamingju með þetta.“ Auðvitað var hann mest svekktur út í sjálfan sig. Það kom mér ekkert við það sem hann gerði og ég ætla ekkert að tengja mig við það. En, það bara gekk lítið upp hjá honum í þessum leik og það pirraði alla, ekki bara hann,“ sagði Heimir.