

Cristiano Ronaldo mun í dag mæta á fund Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu og stíga þar með sín fyrstu opinberu spor á bandarískri grund í nær áratug.
Ronaldo, nú leikmaður Al-Nassr og fyrirliði Portúgals, hefur ekki sést opinberlega í Bandaríkjunum síðan 2017 þegar hann var sakaður um nauðgun af Kathryn Mayorga, fyrrverandi kennara frá Las Vegas.

Hún hélt því fram í viðtali við Der Spiegel að Ronaldo hefði brotið á sér árið 2009. Hún fékk 375 þúsund dali í sátt árið 2010 en opnaði málið aftur sjö árum síðar. Málið var hins vegar fellt niður árið 2022 þar sem dómari taldi að lögfræðingur hennar hefði notast við leka og stolin skjöl. Ronaldo hefur ávallt neitað ásökunum.
Síðast heimsótti Ronaldo Bandaríkin árið 2016, þegar hann fagnaði EM-titli Portúgals í Las Vegas. Nú verður hann hluti af opinberri heimsókn Sádi-Arabíu til Washington, þar sem Trump hyggst taka á móti krónprinssanum Mohammed bin Salman. Þetta er fyrsta heimsókn krónprinssans til Bandaríkjanna síðan morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi árið 2018.
Ferð Ronaldo verður einnig talin upphaf undirbúnings fyrir HM næsta sumar í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Fyrirhugað er að Portúgal mæti Bandaríkjunum í vináttuleik í Atlanta í mars 2026 og vonast er til að Ronaldo verði með í þeim leik.
Stuðningsmenn fylgdust grannt með flugi hans frá Riyadh til Washington á mánudagskvöld og Georgina Rodríguez deildi myndum úr ferðinni á samfélagsmiðlum.
