

Heimir Hallgrímsson og lærisveinar hans í Írlandi eru komnir í umspilið um laust sæti á HM eftir ótrúlegan 2-3 sigur á Ungverjalandi á útivelli.
Troy Parrot var allt í öllu í leik Íra og skoraði þrennu í leiknum. Írar urðu að vinna leikinn til að komast upp í annað sæti riðilsins.
Parrot skoraði sigurmarkið á 95. mínútu þegar hann mætti í teiginn og kom tánni í boltann. Magnaður sigur Íra og draumurinn um HM lifir.
Írar þurftu sigur til að ná inn í umspilið, liðið vann frækinn sigur á Portúgal á fimmtudag og þurfti svo sigur í dag. Það tókst með ótrúlegum hætti.
Eftir að hafa sætt gagnrýni hefur Heimir unnið hug og hjörtu írsku þjóðarinnar undanfarna daga.