
Írland vann frækinn 2-0 sigur á Portúgal í undankeppni EM í kvöld, en Heimir Hallgrímsson er þjálfari liðsins. Cristiano Ronaldo var rekinn af velli og virtist kenna Heimi um það. Heimir var spurður út í þetta eftir leik.
Bæði mörk Íra komu í fyrri hálfleik en eftir klukkutíma leik fékk Ronaldo sitt fyrsta rauða spjald í sögunni með Portúgal. Ronaldo fékk rauða spjaldið fyrir að slá til leikmanns Írlands.
Fyrir leik hafði Ronaldo svarað Heimi en eftir fyrri leik liðanna sagði Heimir að Ronaldo hefði stjórnað dómaranum í fyrri leik liðanna. „Ég tel að hann sé með þessu bara að reyna að hafa áhrif á dómarann í leiknum á morgun. Án efa. Hann er sniðugur maður,“ sagði Ronaldo fyrir leikinn.
„Hann sagði við mig á leiðinni út af að þetta hafi verið sniðugt af mér,“ sagði Heimir eftir leik um uppþot Ronaldo í kvöld.
„Þetta hafði samt ekkert með mig að gera, nema ég hafi komist inn í hausinn á honum. Gjörðir hans á vellinum urðu til þess að hann fékk rautt spjald,“ sagði hann enn fremur.