
Fyrrverandi stjóri Manchester United, Ole Gunnar Solskjær, hefur verið ráðinn í nýtt starf aðeins tveimur mánuðum eftir að hann var rekinn frá tyrkneska félaginu Besiktas.
Norðmaðurinn var látinn fara frá Besiktas í ágúst eftir tap gegn Lausanne í umspili Sambandsdeildarinnar. Nú er hann kominn í starf á vegum UEFA.
Starfið felur í sér að greina leiki í Meistaradeildinni og öðrum keppnum á vegum UEFA út frá sjónarhorni þjálfara, auk þess að velja mann leiksins í hverri umferð Meistaradeildarinnar.
Samkvæmt UEFA snýst valið um frammistöðu leikmanna í sókn og vörn, taktík, jákvæða framkomu og áhrif á úrslit leiksins. Meðal annarra sem sinna þessu hlutverki eru Rafa Benítez, Roberto Martínez, Gaizka Mendieta, Gareth Southgate, Frank de Boer, Avram Grant og Aitor Karanka.