
Ísak Bergmann Jóhannesson landsliðsmaður átti afar smekklega stoðsendingu í sigri Íslands á Aserbaísjan í undankeppni HM í kvöld.
Ísland vann 0-2 sigur í Bakú og tryggði sér þar með úrslitaleik við Úkraínu á sunnudag um að komast í umspil um sæti á HM vestan hafs.
Ísak lagði sem fyrr segir upp fyrra mark leiksins á Albert og var spurður út í þetta eftir leik.
„Ég talaði við Albert í morgun um að ég ætlaði að reyna að finna hann eins mikið og ég get. Hann er það góður í fótbolta að hann finnur pláss alls staðar og ég þurfti bara að finna hann,“ sagði Ísak léttur við Sýn eftir leik.
Íslandi dugir jafntefli gegn Úkraínu ef þeir tapa gegn Frökkum í París í kvöld. Spilað er í Póllandi á sunnudag.