
Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari gat leyft sér að vera sáttur eftir 0-2 sigur á Aserbaísjan í undankeppni HM í kvöld. Leikurinn var þó ekki fullkominn að hans mati.
Ísland leiddi 0-2 í hálfleik eftir mörk Alberts Guðmundssonar og Sverris Inga Ingasonar. Dugðu þau til og það verður því úrslitaleikur gegn Úkraínu um umspilssæti á sunnudag.
„Mér líður mjög vel. Þetta var erfiður leikur. Fyrri hálfeikur var fagmannlegur og vel spilaður. Ég hafði það á tilfinningunni í seinni hálfleik að menn vildu ekki meiðast og voru bara í 95 prósent. Það munar bara um það í alþjóðlegum fótbolta. Þeir (Aserar) gáfu allt í seinni hálfleikinn. Við vorum aðeins og værukærir, sem hefði verið dauðadómur á sunnudag,“ sagði Arnar við Sýn eftir leik.
„Þetta var ekki fullkominn leikur en tökum það góða úr fyrri hálfleik með okkur. Við skorum tvö mörk og erum markahæsta liðið í þessum riðli. Það sýnir okkur að ef varnarleikurinn er sterkur er alltaf möguleiki á að ná í góð úrslit.“
Úkraína mætir Frökkum í kvöld. Tapi liðið dugir Íslandi stig gegn þeim í Póllandi á sunnudag. Arnar og strákarnir ætla sér að horfa á leikinn í kvöld þó klukkan sé að ganga miðnætti í Bakú.
„Það er ekki hægt að sofna eftir svon aleik. Adrenalínið er á fullu og þetta verður spennandi á eftir. Frakkarnir ná vonandi að klára verkefnið fyrir okkur, við kláruðum okkar.“