

Fyrrverandi Chelsea-leikmaðurinn Oscar gæti verið neyddur til að leggja skóna á hilluna eftir að hafa misst meðvitund á æfingu, þar sem rannsóknir á sjúkrahúsi leiddu í ljós hjartavandamál, samkvæmt brasilískum fjölmiðlum.
Hinn 34 ára miðjumaður fékk skyndilega áfall á æfingu með São Paulo á þriðjudag þegar hann var að taka próf á æfingahjóli.
Oscar, sem lék fimm tímabil með Chelsea áður en hann gekk í raðir Shanghai Port árið 2016 fyrir 60 milljónir punda, sneri aftur til uppeldisfélags síns í desember í fyrra. Hann hefur þó aðeins spilað 21 leik síðan.
Oscar lék síðast í ágúst gegn Corinthians en þurfti að fara af velli eftir 20 mínútur vegna brots í hryggjarlið. Hann hefur aðeins verið á varamannabekknum tvisvar síðan.
Samkvæmt Globo Esporte komu fram merki um óeðlilega starfsemi í hjarta hans þegar hann fór í rannsókn vegna meiðslanna, en hann var þá talinn leikfær.
Í yfirlýsingu São Paulo á þriðjudag segir að Oscar hafi lent í atviki tengdu hjartanu og hafi strax verið fluttur í umsjá læknateymis félagsins og sérfræðinga frá Einstein Hospital Israelita.
Framtíð leikmannsins er nú óljós, og ekki ljóst hvort hann muni geta snúið aftur á völlinn.