

Manchester United stefnir á að styrkja miðjuna í janúarglugganum og eru tveir leikmenn efstir á óskalistanum samkvæmt enskum blöðum.
Conor Gallagher og Angelo Stiller eru nefndir til sögunnar. Gallagher, 25 ára, er nú hjá Atletico Madrid eftir dvöl hjá Chelsea og hefur vakið athygli United vegna vinnusemi og dugnaðar.
Angelo Stiller, 24 ára þýskur landsliðsmaður hjá Stuttgart, er einnig talinn sterkur kostur og myndi bæta upp leikskilning og ró á miðjunni.
Auk þess er United að fylgjast náið með Javi Guerra hjá Valencia. Hann er 22 ára og hefur átt sterkt tímabil í La Liga. Hins vegar eru fleiri stórlið í kapphlaupinu um hann, þar á meðal Atletico Madrid og AC Milan.
United vill bæta miðjuna eftir misjafna frammistöðu á tímabilinu og gæti eitt þessara nafna orðið forgangsverkefni þegar glugginn opnast. Ekki er þó búist við auðveldum viðræðum, þar sem félögin meta leikmennina hátt.