

Fabian Hurzeler, knattspyrnustjóri Brighton, segir framherjann Danny Welbeck enn hafa það sem þarf til að leika með enska landsliðinu sjö árum eftir síðasta landsleik hans.
Welbeck, 34 ára, hefur verið í miklu stuði á þessu tímabili og skorað fimm mörk í níu leikjum í úrvalsdeildinni. Hann hefur ekki spilað fyrir England síðan í leiknum um þriðja sætið á HM 2018 gegn Belgíu, en Hurzeler telur hann tilbúinn ef tækifærið kemur.
„Ég hef mikla trú á því að Danny Welbeck geti spilað fyrir England,“ sagði Hurzeler á blaðamannafundi fyrir leik Brighton gegn Leeds.
„Ég spurði leikmennina hvort þeir héldu að Danny gæti spilað fyrir landsliðið og allir voru sammála. Það segir sitt.“
Hann bætti við að Thomas Tuchel, landsliðsþjálfari Englands, væri frábær þjálfari og myndi taka réttu ákvörðunina þegar valið kæmi að Welbeck.