
Valur hafði undanfarið reynt að ná í þrjá þjálfara áður en lendingin varð Hermann Hreiðarsson. Þessu heldur Kristján Óli Sigurðsson fram í Þungavigtinni.
Hermann var kynntur til leiks hjá Val í gær, en Valur lét Srdjan Tufegdzic, Túfa, fara á dögunum þrátt fyrir flott gengi. Valur hafnaði í öðru sæti í deild og bikar á leiktíðinni.
Sagan segir að nokkuð sé síðan örlög Túfa voru ráðin en Kristján segir að Valur hafi hlerað þrjá menn áður en Hermann var ráðinn.
Mennirnir sem um ræðir eru Halldór Árnason, sem var rekinn frá Breiðabliki í síðasta mánuði. Samkvæmt Kristjáni var einnig á blaði Ólafur Ingi Skúlason, sem tók við Breiðabliki af Halldóri eftir að hafa stýrt U-21 árs landsliði karla þar áður.
Loks á knattspyrnugoðsöngin Eiður Smári Guðjohnsen að hafa verið á blaði. Hann stýrði síðast FH og hefur einnig verið aðstoðarþjálfari í A-landsliði karla sem og U-21 árs landsliðinu.
Uppfært: Samkvæmt upplýsingum sem 433.is fékk frá Hlíðarenda er það ekki rétt að Hermann hafi verið fjórði kostur á blaði, félagið hafi kannað aðra eins og eðlilegt sé í svona ferli en Hermann hafi verið fyrstur á blaði eftir tímabilið.