

Albert Brynjar Ingason, sérfræðingur í knattspyrnufræðunum og fyrrum framherji Fylkis telur að það sé verið að aumingjavæða íslenskan fótbolta. Hann lætur ummælin falla eftir umræðuna síðustu vikurnar.
Svo virðist sem flest lið á Íslandi ætli að fara í það að yngja upp leikmannahópa sína. Valur, Breiðablik, FH og fleiri lið hafa boðað það að stilla upp yngri liðum á næstu leiktíð. Albert telur að ungir leikmenn eigi að þurfa að hafa fyrir hlutunum.
„Yngja upp eins og flest lið í dag? Mér finnst bara verið að aumingjavæða íslenskan fótbolta, þessi umræða um að allir eigi að vera að yngja upp,“ sagði Albert í nýjasta þætti af Dr. Football.
Mikið hefur verið rætt og ritað um það að leikmenn í Bestu deildinni séu of gamlir upp til hópa. Albert tók dæmi sem sumir hafa tekið.
„Ef Lamine Yamal væri að spila á Íslandi þá væri hann ekki að spila. Allir þessu bestu ungu leikmenn eru farnir héðan áður en þeir geta spilað.“
Albert telur að ungir leikmenn eigi að hafa fyrir hlutunum, ekki bara að fá tækifæri af því að þeir eru ungir.
„Á þá bara að spila hinum? Eiga þeir ekki að hafa neitt fyrir þessu, þú verður betri að hafa eldri leikmenn sem þú slærð svo út.“