
Íslenska kvennalandsliðið vann 0-2 sigur á Norður-Írum í fyrri leik liðanna ytra í umspili um að halda sætinu í A-deild Þjóðadeildarinnar.
„Mér fannst fyrri hálfleikurinn góður. Svo fannst mér í seinni hálfleik við aðeins hægja á leiknum þannig að við náðum ekki sama flæði í leik okkar og skapa okkur eins mikið. Við vorum með of mikið sjálfstraust eða eitthvað svoleiðis, við róuðum leikinn niður algerlega að óþörfu. Við hefðum átt að halda áfram að keyra á þær,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari við RÚV eftir leik.
Miðverðirnir Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir skoruðu mörkin í sitt hvorum hálfleiknum eftir föst leikatriði.
„Föst leikatriði eru partur af fótbolta og eru kannski 30-40% af mörkum hjá okkur. Það er bara ekkert að því, þetta er bara vopn sem við höfum og notum að sjálfsögðu. Maður mun aldrei kvarta yfir því. Það er bara gott að koma hingað og vinna sannfærandi.“
Seinni leikur liðanna fer fram á Laugardalsvelli á þriðjudag og íslenska liðið í góðri stöðu.