
Það er allt undir á Ísafirði á morgun er Vestri tekur á móti KR í sannkölluðum úrslitaleik um að halda sæti sínu í Bestu deild karla. Veðbankar eru hliðhollir KR.
KR þarf sigur til að halda sæti sínu í deildinni en Vestra nægir jafntefli, svo lengi sem Afturelding vinnur ekki ÍA uppi á Skaga á sama tíma.
Vesturbæingar ætla að fjölmenna leikinn fyrir vestan og reyna að hjálpa til við að koma í veg fyrir að liðið falli úr efstu deild í fyrsta sinn síðan 1977.
Stuðlar fyrir leikinn eru að sjálfsögðu komnir og á Lengjunni er 1,92 á sigur KR, en 3,32 á sigur Vestra. Stuðull á jafntefli er 3,75. Þarf Afturelding að vonast til að það verði niðurstaðan.
Stuðull á sigur Mosfellinga á Akranesi á morgun er 2,38 og því hægt að segja að stuðull á að Afturelding haldi sér uppi, að allt falli þeim í vil, sé 8,92.
Leikirnir hefjast klukkan 14 á morgun.