

Rafa Benítez er mættur aftur í þjálfun eftir að hafa verið ráðinn nýr þjálfari Panathinaikos í Grikklandi.
Sverrir Ingi Ingason er leikmaður gríska liðsins og hefur verið í stóru hlutverki.
Benítez, 65 ára, var án félags eftir að hafa yfirgefið Celta Vigo fyrr á árinu, en hann snýr nú aftur í evrópskan fótbolta og mun stýra Panathinaikos í Evrópudeildinni, keppni sem hann hefur áður unnið.
Samkvæmt grískum fjölmiðlum hefur Panathinaikos boðið honum afar glæsilegan samning sem gerir Spánverjann hæstlaunaða þjálfara í sögu grísku úrvalsdeildarinnar. Benítez hefur skrifað undir tveggja og hálfs árs samning og er sagður fá 4,4 milljónir punda á ári.
Það er samningur sem hefur vart sést áður hjá grísku félagi og undirstrikar metnað félagsins..
Fyrrverandi stjóri Liverpool, Chelsea, Newcastle og Everton var fyrsti kostur forseta félagsins, Yiannis Alafouzos, og yfirmanns knattspyrnumála félagsins, Franco Baldini.
Benítez, sem einnig hefur stýrt Real Madrid og Inter Milan á ferlinum, flaug til Aþenu á fimmtudag með einkaþotu til að ganga frá samningnum og hitta stjórn félagsins.
Panathinaikos vonast til að reynsla hans og sigurhefð geti hjálpað félaginu að ná aftur titilbaráttu innanlands og styrkja stöðu þess í Evrópu.