Ólafur Ingi Skúlason, nýr þjálfari karlaliðs Breiðabliks, hvetur stuðningsmenn til að mæta og styðja liðið í Sambandsdeildinni þrátt fyrir að kalt sé í veðri.
Blikar mæta KuPS frá Finnlandi í 2. umferð deildarkeppninnar í kvöld og afar mikilvægt að sá leikur vinnist. Eins og landsmenn vita hefur verið kalt undanfarið en það er þó spáð stillu og fínu veðri klukkan 16:45, er leikurinn hefst.
„Ekki spurning, bara skella sér í dúnúlpuna, setja á sig húfuna og mæta og styðja okkur,“ sagði Ólafur Ingi við 433.is í gær.
„Það er ekki sjálfgefið að íslenskt lið sé að spila í riðlakeppni Evrópu svo slökkvið á sjónvarpinu og drífið ykkur í Laugardalinn,“ sagði hann enn fremur léttur í bragði.
Ítarlegra viðtal er í spilaranum, þar sem Ólafur fer yfir fyrstu dagana í nýju starfi og fleira.