Samkvæmt fréttum frá Englandi í dag gæti samfélagsmiðlafærsla frá áhrifavaldinum og öfgahægrimanninum Tommy Robinson hafa haft áhrif á ákvörðun Maccabi Tel Aviv um að hafna sætum í gestahólfinu fyrir stuðningsmenn sína í Evrópudeildarleik liðsins gegn Aston Villa á Villa Park 6. nóvember næstkomandi.
Fyrr í vikunni staðfesti Aston Villa að stuðningsmenn Maccabi fengju ekki aðgang að leiknum eftir tilmæli öryggisnefndar í Birmingham. Ástæðan er sögð tengjast áhyggjum af öryggi fólks. Lögreglan á svæðinu tók undir ákvörðunina.
Ákvörðunin vakti hörð viðbrögð. Forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, sagði hana ranga og utanríkisráðherra Ísraels, Gideon Saar sagði hana sorglega. Fjallað hafði verið um hugsanlega U-beygju og að stuðningsmenn gætu fengið miða, en ekkert verður af því.
Samkvæmt frétt Daily Mail varð mynd sem Tommy Robinson birti á föstudag, þar sem hann klæddist treyju Maccabi og hvatti fylgjendur sína til að mæta á leikinn í mótmælaskyni, til þess að félagið ákvað endanlega að hafna miðum á völlinn fyrir sína aðdáendur.
„Við óttuðumst að stuðningsmenn okkar yrðu ranglega tengdir við starfsemi Robinsons og fylgismanna hans, sem gætu jafnvel dulbúist sem Maccabi-aðdáendur. Það gerði áhættuna einfaldlega of mikla,“ segir heimildamaður nálægt Maccabi liðinu.