Framtíð suðurkóreska varnarmannsins Kim Min-jae hjá Bayern München er í óvissu eftir að hann missti sæti sitt í byrjunarliðinu undir stjórn Vincent Kompany.
Kim, sem kom frá Napoli sumarið 2023 fyrir 57 milljónir evra, hefur aðeins spilað sex leiki á tímabilinu og er nú þriðji í goggunarröðinni á eftir Dayot Upamecano og Jonathan Tah. Samkvæmt ítölskum miðlum fylgjast AC Milan og Juventus grannt með stöðu hans fyrir janúargluggann.
Hinn 29 ára gamli Kim er vinsæll á Ítalíu eftir frábæran árangur með Napoli, en liðið vann deildina árið 2023. Það heillar Milan og Juventus að kappinn hafi áður slegið í gegn í landinu.
Helsta hindrunin er þó laun Kim, sem nema um 9 milljónum evra á ári, upphæð sem fá ítölsk félög geta boðið. Gazzetta dello Sport segir hann þurfa að draga úr launakröfum sínum ef hann á að snúa aftur til landsins.