Landsliðsmaðurinn Stefán Teitur Þórðarson hefur lítið fengið að spila með Preston á Englandi undanfarnar vikur. Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari var spurður út í hans stöðu í aðdraganda leiksins við Úkraínu annað kvöld.
Stefán Teitur byrjaði annan leikja Íslands í síðasta landsleikjaglugga en síðan hefur hann aðeins spilað 8 mínútur í ensku B-deildinni.
„Í draumaheimi vill maður að allir okkar strákar séu í toppformi. En það hefur verið þannig síðan ég kom að 2-3 leikmenn eru ekki fastamenn í sínum liðum,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í dag.
„Ég held að það sé út af stærð þjóðarinnar. Mér finnst leiðinlegt að segja þetta. Enskir, franskir og þýskir leikmenn eru bara fastamenn í öllum liðum. Hjá okkur virðist þetta vera smá trend og til að taka skrefið áfram og verða betri þarf það að breytast.
Hann er lykilmaður í okkar hóp svo þetta er leiðinleg staða. En eins og annað þá er bara að taka það á kassann og halda áfram,“ sagði Arnar enn fremur.
Leikur Íslands og Úkraínu er liður í undankeppni HM, en Strákarnir okkar mæta svo Frökkum þremur dögum síðar. Báðir leikirnir verða hér heima.