Sir Jim Ratcliffe hefur staðfest að hann ætli að gefa Rúben Amorim þrjú ár í starfi sem stjóri Manchester United. Þetta kom fram í viðtali við The Business Podcast.
„Já, þrjú ár, því hlutirnir gerast ekki á einni nóttu,“ sagði Ratcliffe.
Eigandinn minntist jafnframt á fyrstu ár Sir Alex Ferguson hjá United og þá pressu sem var á honum áður en árangurinn fór að sjást.
„Ég man eftir pressunni sem kallaði eftir því að reka Sir Alex á fyrstu tveimur árum hans. Það sama má segja um Arteta hjá Arsenal, hann átti mjög erfitt í byrjun,“ sagði Ratcliffe.
„Við verðum að vera þolinmóð og horfa til lengri tíma þegar kemur að árangri.“
Ratcliffe, sem tók formlega við fótboltaarm Manchester United á síðasta ári, hefur ítrekað að hann vilji byggja upp traustan grunn með Amorim við stjórnvölinn. Þetta er skýr sýn um langtímaverkefni og að skammtímalausnir séu ekki á dagskrá hjá nýju eigendateyminu.