Ísak Bergmann Jóhannesson landsliðsmaður er bjartsýnn á að Ísland geti unnið Úkaínu í undankeppni HM á föstudag og komið sér í frábæra stöðu upp á framhaldið.
„Við erum allir mjög vel stemmdir, áttum auðvitað þennan góða glugga síðast og getum byggt ofan á frammistöðurnar þar. Við erum klárir í þetta,“ sagði Ísak.
Íslenska liðið átti tvo mjög góða leiki í síðasta mánuði, burstuðu Aserbaísjan en töpuðu naumlega gegn Frökkum. Mikill meðbyr er með liðinu, uppselt á báða leikina sem framundan eru og liðið finnur fyrir því.
„Já, algjörlega. Þetta er í fyrsta sinn síðan ég kom inn í landsliðið sem er uppselt svo við erum mjög spenntir. Okkur kitlar í puttanna að spila,“ sagði Ísak.
Ísland tapaði gegn Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM í mars í fyrra. Vill liðið hefna fyrir það.
„Ég held að þetta verði 50/50 leikur. Við spiluðum við þá í úrslitaleiknum fyrir EM svo það er líka hefnd í okkar huga, okkur leið ekki vel þá. Við erum líka búnir að þróa okkur sem lið síðan, spilum miklu betri fótbolta. Það á enginn að koma hingað og vinna okkur.“
Ísland er með þrjú stig í riðlinum en Úkraína aðeins eitt.
„Ef við vinnum förum við í sex stig og skiljum þá eftir með eitt. Ef við vinnum setjum við okkur allavega í mjög góða stöðu. Við setjum fókus á það og svo sjáum við hvað gerist með Frakkana,“ sagði Ísak, en Ísland mætir Frakklandi á mánudag.