Framtíð hollenska framherjans Joshua Zirkzee hjá Manchester United er óljós, en The Sun segir frá því að Como, undir stjórn Cesc Fabregas, skoði nú möguleikann á að fá leikmanninn í janúarglugganum.
Zirkzee hefur átt erfitt með að komast í stórt hlutverk undir stjórn Ruben Amorim og einungis komið inn af bekknum í fjórum leikjum á tímabilinu. Hann gekk til liðs við United frá Bologna fyrir 36,5 milljónir punda fyrir aðeins 14 mánuðum en hefur ekki náð að festa sig í sessi á Old Trafford.
Samkvæmt The Sun er United tilbúið að hlusta á tilboð, hvort sem um er að ræða lán eða sölu. Juventus fylgist einnig með stöðu mála.
Þessi 24 ára gamli leikmaður skoraði 11 mörk fyrir Bologna þegar liðið tryggði sér Meistaradeildarsæti en hefur aðeins skorað sjö mörk í 53 leikjum fyrir United.
Zirkzee er samningsbundinn United til 2029. Reiknað er með að framtíð hans verði rædd nánar eftir landsleikjahléið.