Það vakti mikla athygli að Jóhann Berg Guðmundsson hafi ekki verið valinn í landsliðshóp Arnars Gunnlaugssonar fyrir komandi leiki við Úkraínu og Frakkland í undankeppni HM.
Jóhann hefur verið meiddur í síðustu landsleikjum en er orðinn heill. Þessi 99 A-landsleikja maður var þó ekki valinn af Arnari að þessu sinni.
„Það er hrikalega leiðinlegt með þessa síðustu þrjá glugga fyrir hann. Það er oft þannig í þessum blessuðu íþróttum að þegar einhver er frá kemur annar inn í staðinn og þegar hann stendur sig vel er þetta spurning um sanngirni þess að kippa þeim aðila út. Í þetta skiptið á hópurinn skilið að fá að halda áfram nánast óbreyttur,“ segir Arnar um málið í Íþróttavikunni á 433.is.
Arnar sagði frá því á blaðamannafundi í gær að hann hafi ekki rætt við Jóhann um það að hann yrði ekki valinn. Einhverjir setja spurningamerki við það, til að mynda sparkspekingurinn Hrafnkell Freyr Ágústsson.
„Það eru ýmsar pælingar sem maður þarf að fara í þegar maður gerist landsliðsþjálfari. Ég reyni að hafa mínar vinnureglur mjög skýrar. Ég er ekki að tilkynna leikmönnum sem voru ekki í síðasta hópi,“ sagði Arnar.
Þá segir hann ekki hægt að útiloka að Jóhann, eins og fleiri, verði kallaðir inn í hópinn ef aðrir leikmenn detta út vegna meiðsla eða annars.
„Ég held að það sé ágætt að mynda sér einhverjar vinnureglur, annars fer þetta allt í tóma þvælu. Það eru líka leikir eftir fram að landsleikjunum og menn geta dottið inn. Þá ætlast ég til og vona að hann sé klár ef kallið kemur.“
Það má hlusta á Íþróttavikuna í spilaranum, sem og á helstu hlaðvarpsveitum. Viðtalið við Arnar telur um það bil síðustu tíu mínútur þáttarins.