Emil Ásmundsson leggur skóna á hilluna en þessi þrítugi miðjumaður tók þessa ákvörðun eftir tímabilið í Lengjudeildinni.
„Okkar ástkæri Emil hefur ákveðið að láta af störfum á afreksstigi knattspyrnunnar og segir því þetta gott. Emil leggur skóna á hilluna aðeins 30 ára gamall,“ segir á vef Fylkis.
Emil spilaði upp alla yngri flokka Fylkis og lék samtals 189 leiki fyrir meistaraflokk félagsins. Hann skoraði 26 mörk fyrir félagið, þar á meðal þrjú mörk í 11 leikjum í Lengjudeildinni í sumar.
Hann spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki aðeins 17 ára gamall og gekk að sumri 2012 til liðs við Brighton á Englandi þar sem hann lék í þrjú ár áður en hann sneri aftur heim í Fylki.
Emil lék með KR sumarið 2021 en fór aftur heim til Fylkis en meiðsli hafa hrjáð hann og gert honum erfitt fyrir.
Emil á að baki 25 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og skoraði þar þrjú mörk. Þar á meðal lék hann á lokamóti EM U19 árið 2014.