„Þeir eru komnir í alvöru holu, þeir eiga fimm leiki eftir á móti þessum fimm liðum. Ég held að þeir haldi sér uppi,“ sagði Mikael Nikulásson fyrrum þjálfari KFA og harður stuðningsmaður KR um stöðu mála í Vesturbæ. Hann ræddi málið í Þungavigtinni í dag.
KR tapaði 7-0 á heimavelli gegn Víkingi í gær og ljóst að KR þarf að berjast fyrir lífi sínu í neðri hluta deildarinnar. KR gæti farið niður í fallsæti í kvöld þegar Afturelding heimsækir ÍA, fari strákarnir úr Mosfellsbæ með sigur af hólmi verður KR í ellefta sæti þegar deildinni er skipt í tvennt.
Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari KR var eðlilega niðurlútur eftir tapið. „Það er alveg ljóst að þó Óskar sé vinur minn, þetta er búið að klúðrast þetta tímabil. Þetta er diss á alla aðra þjálfara sem hafa verið hjá KR síðustu 40 ár. Það væri búið að láta það fara, bara tveir leiki gegn Víkingi og Val er 1-13,“ sagði Mikael um þjálfara KR og hans framtíð.
Mikael segir að leikstíll Óskars með KR sé ekki að ganga upp. „Þessi leið er búin að feila, hann vissi að hann væri að taka séns fyrir mót. Ég hélt að þetta myndi ganga, þetta er búið að feila illilega. Nú er ekkert annað að gera en að fara til baka og ná í stig.“
Mikael veltir því þó fyrir sér hvernig Óskar geti endurskoðað hlutina eftir að hafa æft þennan fótbolta í heilt ár. „Hvenær ætlar hann að fara að endurskoða þetta núna? Það er erfitt að endurskoða núna, ætla þeir að pakka í vörn? Þeir hafa svo sem gert það gegn Fram og Vestra á útivelli, ég veit það ekki. Leikstíll skiptir engu máli fyrir KR í úrslitakeppni, leikmenn verða að fara að spila betur.“
„Þetta er versta frammistaða í sögu KR, þetta eru verstu úrslit á heimavelli. Óskar hlýtur að vera tæpur með starfið.“