Ljósanótt í Reykjanesbæ kom í veg fyrir að Njarðvík fengi leik sínum við Keflavík í Lengjudeild karla frestað. Þessu er haldið fram í Þungavigtinni.
Njarðvík á tvo leikmenn í U-19 ára landsliðinu, Freystein Inga Guðnason og Davíð Helga Arnórsson, sem hefur leik á æfingamóti í Slóveníu. Hefst það á miðvikudag og verður spilað á tæpri viku, alls þrír leikir.
Njarðvík á leik við Leikni í kvöld og Keflavík laugardaginn í næstu viku. Mikael Nikulásson segir í Þungavigtinni að liðinu hafi verið boðið af KSÍ að spila við Leikni á miðvikudag eða fimmtudag í þessari viku og Keflavík um helgina í staðinn vegna þeirra leikja sem skarast á við U-19 ára verkefnið.
Þessu boði ákvað liðið að taka, þrátt fyrir mikið álag á lykilmenn sína á skömmum tíma með liði og landsliði. Svo varð hins vegar U-beygja eftir símtal frá Keflvíkingum, eftir því sem kemur fram í Þungavigtinni. Þess má geta að Þór fékk sama tilboð, en U-19 ára landsliðsmaðurinn Einar Freyr Halldórsson er þar á mála.
„Þórsararnir hentu þessu frá sér strax. Þeir eiga Fjölni heima og ákváðu bara að vera án Einars. Njarðvík á Keflavík á útivelli og þó þeim lítist ekkert svakalega vel á þennan möguleika þá taka þeir hann, þetta eru lykilmenn.
Svo kemur í ljós að það er Ljósanótt þegar Keflavík-Njarðvík á að fara fram. Þá hringja einhverjir úr Keflavík í toppana í KSÍ, því þetta er bara eins og ÍBV missi Þjóðhátíðarleikinn, og stoppuðu þetta. Njarðvík þarf að spila án sinna bestu manna út af Ljósanótt,“ segir Mikael hneykslaður í Þungavigtinni.