Manchester United vill gjarnan losna við Jadon Sancho í sumar og hefur verðmiðinn á honum lækkað töluvert.
Ruben Amorim er að taka til í leikmannahóp sínum og er Marcus Rashford farinn til Barcelona. Enn reynir félagið að losa Alejandro Garnacho, Antony, Tyrell Malacia og svo Sancho.
Sancho var á láni hjá Chelsea á síðustu leiktíð og komst félagið hjá því að fara eftir kaupskyldu sinni að henni lokinni og greiddi í stað þess 5 milljóna punda sekt fyrir að taka enska kantmanninn ekki.
Nú segir Daily Mail að United muni samþykkja boð á milli 15 og 17 milljóna punda fyrir Sancho. Það er áhugi hjá fyrrum félagi hans Dortmund, sem og Juventus.
Sancho kom til United frá Dortmund árið 2021 á 73 milljónir punda. Miklar væntingar voru til hans gerðar en komst hann aldrei nálægt því að standast þær.