Srdjan Tufegdzic hefur fullt traust frá stjórn Vals og verður áfram þjálfari liðsins á næstu leiktíð. Þessu heldur fyrrum framkvæmdarstjóri félagsins fram í Dr. Football.
Tufegdzic tók við liði Vals á miðju tímabili af Arnari Grétarssyni. „Ég hef það eftir ágætlega áreiðanlegum heimildum. Planið er að hann verði áfram,“ segir Jóhann Már Helgason fyrrum framkvæmdarstjóri Vals.
Spekingar hafa rætt um að Valur gæti skoðað það að skipta um þjálfara eftir mót en stjórn Vals virðist ekki á þeim buxunum.
Jóhann heldur því fram að ástandið á leikmannahópi Vals hafi verið mjög slæmt þegar Tufegdzic tók við. „Það hefur verið talað um það að ástandið á liðinu þegar hann labbar inn í klúbbinn hafi verið þvílíkt, honum sé ýmislegt fyrirgefið.“
„Sumir hafa ekki æft mikið vegna meiðsla, það hefur gengið á ýmsu. Það er eitt af því sem hann hefur verið að rífa upp er tempó á æfingum. Stjórn Vals er ánægð með það,“ segir Jóhann.
Arnar Sveinn Geirsson fyrrum leikmaður Vals talaði á svipuðum nótum. „Þetta tekur tíma, hann breytir ekki öllu á nokkrum vikum. Liðið var komið miklu neðar og dýpra en menn héldu, það eru bara fullt af vísbendingum um það að koma í ljós. Að segja að Túfa sé ástæðan fyrir því að það hafi ekki tekist að snúa þessu við, ég held að það sé ekki lausn að hann fari.“