Antony kantmaður Manchester United segir að ásaknir um gróft heimilisofbeldi hafi haft gríðarleg áhrif á frammistöðu hans innan vallar á síðustu leiktíð.
Lögreglan í Manchester og í Brasilíu er enn að rannsaka mál Antony. Hann er sakaður um ofbeldi gegn fyrrum unnustu sinni. Antony hefur gefið skýrslu hjá lögreglunni og hafnar þar öllum þeim ásökunum sem hann hefur setið undir. Gabriella Cavallin sem er nú fyrrum unnusta Antony segist hafa óttast um líf sitt þegar hann á að hafa lagt á hana hendur.
„Ég var mjög ósáttur með síðasta tímabil en það var rosalega mikið sem gerðist í persónulega lífinu,“ segir Antony um málið.
Cavallin fór til lögreglunnar og segir að Antony hafi beitt sig líkamlegu ofbeldi. Segja fjölmiðlar að um sé að ræða fjögur skipti sem hún sakar Antony um ofbeldi. Segir í fréttum í Brasilíu að Cavallin hafi farið með myndir af meintum áverkum til lögreglunnar og samskipti þeirra á milli.
Cavallin heldur því fram að Antony hafi haldið sér læstri inn á heimili hans í Manchester. „Hann braut ferðatöskuna mína, tók handtöskuna mína, vegabréfið mitt. Hann braut farsímann minn, hann vildi ekki sleppa mér,“ sagði Cavallin..
Antony segir málið hafa haft gríðarleg áhrif á sig og neitar áfram sök. „Sama hvað fólk segir þá hafði þetta mál áhrif á mig innan vallar.“
„Allt sem ég gekk í gegnum var erfitt fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég hef lært mikið af þessu, ég hef þroskast. Ég trúi því að ég hafi lært mikið á þessu erfiða máli.“