Orri Steinn Óskarsson 19 ára framherji FCK í Danmörku og íslenska landsliðsins er að mati Daily Mail einn efnilegasti knattspyrnumaður í heimi. BLaðið fékk hóp sérfræðinga til að setja listann saman.
Orri er afar öflugur sóknarmaður sem mörg lið hafa verið að eltast við í sumar. Má þar nefna Girona á Spáni.
Segir Daily Mail að FCK hafi hafnað tilboði sem hljóðaði upp á 2,7 milljarða í Orra í sumar en hann skrifaði undir nýjan samning á dögunum.
„Orri var frábær námsmaður og var yfirleitt í bekk með eldri krökkum. Hann kemur úr íþróttafjölskyldu en faðir hans og systir hafa spilað í atvinnumennsku og móðir hans var mögnuð handboltakona,“ segir í umfjöllun Daily Mail.
Faðir Orra er Óskar Hrafn Þorvaldsson sem er er nú þjálfari KR.
„Á næstu tveimur árum verður hann 50 milljóna punda framherji,“ segir sérfræðingur í kaupum á knattspyrnumönnum við Daily Mail. Telur þessi sérfræðingur að virði Orra verði um 9 milljarðar.
Segir í frétt Daily Mail að lið í ensku úrvalsdeildinni hafi áhuga á honum en þar er einnig minnst á Hákon Arnar Haraldsson og að lið á Englandi hafi einnig áhuga á honum.
Lista Daily Mail má lesa í heild hérna yfir efnilegustu knattspyrnumenn í heimi.