Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis sakar Gunnar Odd Hafliðason um að hafa hótað miðvörðum liðsins að hann myndi reka þá af velli ef þeir færu að klípa leikmenn Þróttar.
Atvikið gerist fyrir leik liðsins gegn Þrótti í Lengjudeildinni í gær. „Það er búið að stimpla okkur áður en að leikurinn byrjar. hafsentarnir mínir tveir eru teknir afsíðis í upphitun af dómaranum. Truflar þá í upphitun til að segja við þá að hann sé búinn að heyra úr ýmsum áttum að þeir séu búnir að klípa og toga og hann ætli að gefa þeim rautt ef hann verði vitni af því,“ segir Úlfur Arnar við Fótbolta.net.
Samkvæmt mjög öruggum heimildum 433.is mætti Gunnar Oddur fyrir leik og talaði við Júlíus Mar Júlíusson og Baldvin Þór Berndsen og lét þá vita að ef þeir myndu klípa í leikmenn Þróttar þá myndi hann reka þá af velli. Júlíus og Baldvin eru ungir og mjög efnilegir varnarmann.
Úlfi finnst framkoman galin. „Mér finnst þetta galið að dómari sé að trufla tvo unga leikmenn í miðri upphitun og eiginlega hóta þeim,“ segir Úlfur við Fótbolta.net.
Gunnar Sigurðsson aðstoðarmaður Úlfs fór til Gunnars Odds fyrir leik og samkvæmt heimildum 433.is lét hann dómarann vita af því að Fjölnismenn myndu láta fjölmiðla vita af þessum hótunum. Fyrir það fékk markmannsþjálfarinn gult spjald.
Leiknum lauk með markalausu jafntefli en Fjölnir situr á toppi deildarinnar og hefur liðið átt frábært tímabil í Lengjudeildinni.