Pirringur er á meðal starfsmanna Manchester United eftir að félagið sendi þeim tölvupóst um breytingar á reglum í kringum úrslitaleik bikarsins.
Í gegnum árin hafa allir starfsmenn fengið miða á bikarúrslitaleiki sem United kemst í, þar að auki hefur félagið gefið mökum og fjölskyldum starfsmanna miða á leikinn.
Þá hefur félagið einnig borgað fyrir ferðalagið til London, fram og til baka. Nú er breyting á, hver starfsmaður fær einn miða en þarf að greiða 20 pund fyrir ferðalagið með rútu.
Á sama tíma komust starfsmenn félagsins að því að félagið borgaði fyrir hádegisverð fyrir eiginkonur leikmanna.
Eiginkonur leikmanna United fóru út að borða saman í vikunni og fengu hinar ýmsu gjafir frá félaginu. Snætt var á San Carlo sem er vinsæll veitingastaður í Manchester.
„Þetta er högg í magann,“ segir einn starfsmaður félagsins í samtali við Daily Mail.
„Ferðin á Wembley hefur verið hefð og starfsmenn hafa notið þess í mörg ár. Þetta var svona til að þakka fyrir vel unnið starf.“
United mætir Manchester City í úrslitum enska bikarsins þann 25 maí á Wembley.