Jurgen Klopp var óvinsæll á meðal margra stuðningsmanna Liverpool fyrir að halda leikmanni liðsins inni á vellinum allan leikinn gegn Atalanta í kvöld.
Liðin mættust í seinni leik sínum í 8-liða úrslitum. Liverpool vann 0-1 en er úr leik eftir 0-3 tap í fyrri leiknum á Anfield.
Klopp gerði nokkrar breytingar í seinni hálfleik og fóru þeir Mo Salah, Luis Diaz og Trent Alexander-Arnold allir út af. Curtis Jones spilaði þó allan leikinn. Þetta voru stuðningsmenn Liverpool margir hverjir ósáttir við, eins og athygli er vakin á í enskum miðlum.
„Það er glæpsamlegt að Curtis Jones fái að klára þennan leik,“ skrifaði einn netverji.
„Hvernig er Curtis Jones enn þá inni á vellinum?“ skrifaði annar.
Um síðasta Evrópuleik Liverpool undir stjórn Klopp var að ræða en hann hættir í sumar.