Son Heung Min, leikmaður Tottenham, var sár í sumar er Harry Kane ákvað að yfirgefa félagið og halda til Þýskalands.
Son segir sjálfur frá þessu en hann og Kane voru lengi frábærir saman í sóknarlínu enska félagsins.
Kane er einn besti ef ekki besti markaskorari veraldar í dag og var erfitt fyrir Son að sjá félaga sinn kveðja eftir mörg ár saman í London.
,,Ég og H, við vorum með eitthvað öðruvísi okkar á milli. Það var tenging þarna, tíu ára samband,“ sagði Son.
,,Við spiluðum nánast alltaf sömu stöðu og vissum af hvorum öðrum, við heimtum mikið af hvor öðrum og gerðum alltaf.“
,,Þessi tenging var sérstök. Þegar hann fór þá varð ég mjög sorgmæddur en skrefið var gott fyrir hann. Nú er hann að skora fyrir Bayern og ég vona að hann skori enn fleiri mörk.“