Knattspyrnukonan Marta Cox hefur hótað því að hætta að spila með landsliði Panama eftir ummæli forseta knattspyrnusambandsins.
Cox er 26 ára gömul og spilar með Tijuana í Mexíkó en hún á að baki 20 landsleiki fyrir þjóð sína.
Cox gagnrýndi æfingaaðstæður kvennaliða Panama í febrúar sem fékk forseta sambandsins, Manuel Arias, til að segja mjög umdeild orð við fjölmiðla.
,,Marta Cox ákvað að tjá sig um okkar deild. Hún er í engu formi og hún er feit, hún getur ekki hreyft sig á vellinum,“ sagði Arias.
,,Það er mjög auðvelt að tjá sig en hún veit ekkert hvað er í gangi í Panama, hún hefur enga hugmynd.“
Eftir þessi ummæli hefur Cox hótað því að hætta að spila fyrir landsliðið og eru góðar líkur á að sú ákvörðun standi.